Gagnlegar upplýsingar
Að búa við gott atlæti í æsku hefur langvarandi jákvæð áhrif og er í raun ein besta fjárfesting sem samfélag getur gert. Að því sögðu er mikilvægt að horfa ekki á börn í leikskólum sem sem einungis leið að settu marki, það er að segja að þau verði skattgreiðandi og hraustir borgarar á fullorðinsárum.
Bernskan hefur gildi í sjálfu sér og við viljum að börnum líði vel í sínu daglega lífi jafnt í leikskólanum sem heima fyrir. Með því að vinna með markvissum hætti að heilsueflingu getum við haft áhrif bæði til framtíðar en einnig í dag.
Á Íslandi fara langflest börn á leikskóla, og njóta þar samveru við önnur börn og fullorðna. Mikilvægt starf kennslu og umönnunar fer fram á þessu fyrsta skólastigi þar sem börnin læra og æfa ýmsa færni og venjur sem geta fylgt þeim inn í framtíðina. Að sama skapi eru leikskólarnir vinnustaðir fjölda fólks sem bæði nýtur ávaxta þess að vinna með börnum en tekst sömuleiðis á við þær áskoranir sem því fylgja.
Heilsueflandi leikskóla er ætlað að styðja við markvisst heilsueflingarstarf í leikskólum þar sem bæði börn og fullorðnir geta notið sín í leik og starfi. Leikskólar á Íslandi eru almennt heilsueflandi en með því að skrá stöðu sína og framþróun inni á heilsueflandi.is gefst tækifæri til að varpa ljósi á allt það góða starf sem unnið er í leikskólum landsins auk þess að gefa tækifæri til umbóta þar sem þess er þörf.
„Með því að nýta sér umgjörð Heilsueflandi leikskóla er auðveldara að varpa ljósi á allt það góða starf sem á sér stað í leikskólunum og halda með markvissum hætti utan um heilsueflingarstarfið“
Embætti landlæknis hefur unnið gátlista fyrir Heilsueflandi leikskóla í góðu samstarfi við fræðafólk og fólk á vettvangi. Þar er lögð áhersla á að skapa börnum og starfsfólki góðar aðstæður þar sem heilsa og vellíðan er í forgrunni.