Fara á efnissvæði

Áhugi, ábyrgð og áhrif foreldra á leikskólastarf, auk jákvæðra viðhorfa til leikskólagöngu, geta skipt sköpum fyrir almenna líðan og velferð barnanna. Mikilvægt er að standa vel að aðlögun barns frá upphafi,
því það getur haft áhrif á alla leikskólagöngu barnsins. Það er ný reynsla fyrir barnið og foreldra þegar barn byrjar í leikskóla. Þetta er nýtt og framandi umhverfi sem þau þurfa að kynnast. Í aðlögunarferlinu er mikilvægt að fjölskylda barnsins kynnist starfsfólki deildarinnar og því starfi sem fram fer í leikskólanum en ekki síður að
starfsfólkið kynnist barninu og fjölskyldu þess. Með þessu er lagður góður grunnur að framtíðinni.

Rannsóknir sýna að þegar góð samskipti eru á milli foreldra og skóla hefur það jákvæð áhrif á allt skólastarf. Ávinningur slíks samstarfs skilar sér m.a. í betri líðan barna í skólanum, meiri áhuga og auknu sjálfstrausti barnanna. Þetta leiðir til jákvæðara viðhorfs foreldra og barna til skólans. Með samstarfi foreldra sín á milli og milli foreldra og skóla má virkja samtakamátt foreldra við uppeldið.

Viðmið

  • Skólinn hefur heildræna stefnu um markmið og leiðir til samvinnu við fjölskyldur leikskólabarna og stefnunni er lýst í námskrá leikskólans.
  • Leikskólinn vinnur markvisst að því að virkt og öflugt samstarf við
    fjölskyldur barnanna byggist á gagnkvæmri virðingu, trausti,
    samábyrgð og öflugri upplýsingamiðlun.
  • Við leikskólann er starfrækt foreldraráð samkvæmt lögum nr. 90/2008 og æskilegt er að við leikskólann starfi foreldrafélag með ákveðnu
    skipulagi eins og lýst er í Handbók heimilis og skóla um samstarf
    foreldra og leikskóla.