Fara á efnissvæði

Á fyrstu æviárum barna er lagður grunnur að tilfinningalegri heilsu og velferð þeirra í lífinu. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er góð geðheilsa og líðan forsenda þess að geta notið lífsgæða, vera fær um að finna tilgang með lífinu og vera virkurog skapandi einstaklingur í samfélagi. Fyrstu ár barnsins eru einhver þau mikilvægustu í lífi þess með tilliti til tilfinninga- og félagsþroska en eðlilegur þroski barna er háður öruggum og ánægjulegum tengslum við aðrar manneskjur. Því er brýnt að umhverfi ungra barna einkennist af stöðugleika og hlýju og að börnin geti tengst þeim sem annast þau tilfinningaböndum. Börn sem ekki fá nægt tilfinningalegt atlæti og vitsmunalegaörvun snemma á ævinni geta orðið fyrir sálfélagslegum skaða sem markar þau alla ævi.


Almennar upplýsingar um líðan má finna á Heilsuveru

Ung börn dvelja stærstan hluta vökutíma síns í leikskólanum og því verður hlutverk hans seint ofmetið. Í leikskólanum læra börn að fóta sig í veröld utan veggja heimilisins, umgangast önnur börn og þroska persónuleika sinn í gegnum leik og samskipti. Leikskólar sem sinna tilfinningalegum og þroskatengdum þörfum barna af alúð stuðla þannig að því að hér vaxi úr grasi kynslóðir einstaklinga sem eru tilfinningalega heilbrigðir, færir um að skilja og takast á við tilfinningar sínar, þroska eigin styrkleika, sýna samkennd og mynda jákvæð tengsl við fólkið í kringum sig.

Viðmið

 

  • Stefna leikskólans miðar að því að skapa öruggt, styðjandi og nærandi umhverfi sem stuðlar að andlegri, félagslegri og líkamlegri
    velferð barna.

  • Reglulega er lagt mat m.a. á líðan barna, aðbúnað og samskipti foreldra við starfsfólk og brugðist við eftir þörfum með úrbótum á skólastarfi og skólaumhverfi.

  • Unnið er skipulega að því að efla tilfinningaþroska, tilfinningatengsl, samkennd, félagsfærni, sjálfstraust og jákvæða sjálfsmynd barna.

  • Skólinn er í öflugu samstarfi við foreldra og nærsamfélag um að efla tilfinningalega og félagslega velferð barna.