Fara á efnissvæði

Grunnurinn að lífsvenjum og heilbrigði á fullorðinsárum er lagður í æsku. Dagleg hreyfing gegnir lykilhlutverki fyrir andlega, líkamlega og félagslega vellíðan fólks alla ævi og er börnum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt og þroska. Fjölbreytt hreyfing við hæfi stuðlar að betri líkamshreysti og aukinni hreyfifærni. Hún er einnig sameiginlegur leikur sem skapar meðal annars tækifæri til að auka félagslega færni, eignast vini og efla sjálfstraust. Útivera sem felur í sér hreyfingu er árangursrík leið til að kynna börn fyrir nánasta umhverfi sínu og gefa þeim kost á að takast á við ýmis viðfangsefni með virkum hætti.
Samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu ættu börn að stunda miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 60 mínútur samtals daglega. Heildartímanum má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn til dæmis 10–15 mínútur í senn.

Almennar upplýsingar um hreyfingu má finna á vef Heilsuveru

Breyttir tímar hafa stuðlað að breyttum lífsvenjum og stór hluti barna, unglinga og fullorðinna hreyfir sig of lítið. Það hefur aftur orðið til þess að kyrrsetulíferni er einn af þeim helstu áhættuþáttum sem ógna hvað helst heilsu og velferð landsmanna. Til að sporna gegn þessari þróun er mikilvægt að skapa aðstæður sem takmarka langvarandi kyrrsetu og stuðla að því að bæði börn og starfsfólk leikskóla hafi tækifæri til að fullnægja daglegri hreyfiþörfsinni á öruggan og ánægjulegan hátt. Með aðstæðum er bæði átt við starfið
sem fram fer í skólanum og aðstöðuna sem starfinu er búin innan- og utandyra með tilliti til hreyfingar. Æskilegt er að skólinn útnefni sérstakan starfsmann sem ber ábyrgð á að fylgja eftir stefnu skólans varðandi hreyfingu.

Viðmið

  • Í stefnu skólans er kveðið á um daglega hreyfingu barna og reglulega hreyfingu starfsfólks. Til staðar er aðgerðaáætlun sem miðar að því að viðhalda og bæta aðstæður barna og starfsfólks til daglegrar hreyfingar.

  • Starfsmannahópurinn hefur næga færni til að stuðla að hreyfingu barna í tengslum við mismunandi þætti skólastarfsins og nýtur sjálft stuðningstil hreyfingar.

  • Starfsfólk, foreldrar og börn eru hvött til að nota virkan ferðamáta eins og göngu eða hjólreiðar.

  • Aðstæður stuðla að hreyfingu barna í tengslum við mismunandi þætti skólastarfsins innan- og utandyra.

  • Hentugar aðstæður eru fyrir kennslu og nám í skipulögðum hreyfistundum.

  • Skólinn er í samstarfi við ýmsa aðila í nærsamfélaginu um að stuðla að hreyfingu barna og starfsfólks