Fara á efnissvæði

Börn verja stórum hluta dagsins í leikskólum og því er mikilvægt að þau eigi þar kost á hollum og góðum mat. Algengt er að börn borði morgunmat, ávexti að morgni, hádegisverð og síðdegishressingu í leikskólum. Í þeim tilfellum ættu máltíðir í leikskólum að fullnægja um 70% af orkuþörf barnanna að meðaltali á hverjum degi. Mikilvægt er að leikskólastjórar móti stefnu á sviði næringar og að starfsmenn hafi yfirsýn yfir næringu barna meðan á dvöl þeirra í leikskólanum stendur. Með slíkri heildrænni nálgun má betur stuðla að samræmi í næringarmálum og bættri heilsu og líðan barna. Auðveldara er að móta hegðun en breyta og því er mikilvægt að byrja snemma að kenna börnum góðar neysluvenjur. Foreldrar og leikskólasamfélagið gegna þar lykilhlutverki og eru fyrirmyndir barnanna.

Almennar upplýsingar um næringu eru á vef heilsuveru

Hluti af félagslegum þroska mótast við matarborðið þegar við borðum saman og því er mikilvægt að fullorðnir borði með börnunum, en þá gefst líka gott tækifæri til að kenna þeim góða borðsiði. Mikilvægt er að skapa góðar aðstæður og umgjörð fyrir máltíðirnar.
Umgengnisreglur við borðhald og nægur tími til að borða stuðlar að notalegum matartíma. Einnig er mikilvægt að börnin læri að þeim líður vel af því að borða hollanmat. Tengja ætti fræðslu um hollt mataræði við daglegt starf í leikskólanum og gæta samræmis milli þess sem kennt er og þess matar sem boðið er upp á. Líta ætti á matartímann og framreiðslu heilsusamlegs matarsem hluta af náminu í leikskólanum.

Með heildrænni stefnu um næringu í leikskólum er hægt að stuðla að góðum neysluvenjum barna og starfsfólks. Æskilegt er að leikskólinn útnefni sérstakan starfsmann sem ber ábyrgð á að fylgja eftir stefnu í næringarmálum. Hér á eftir eru viðmið sem mikilvægt er að fjalla um í stefnu leikskólans um næringu.

Viðmið

 

  • Stefna leikskólans á sviði næringar er heildræn og tekur mið af ráðleggingum Embættis landlæknis í öllu sínu starfi.

  • Fjallað er um umgjörð og umhverfi máltíða í stefnu um næringu.

  • Börn fá fræðslu um hollt mataræði. Samræmi er milli þess sem kennt er í leikskólanum um næringu og þess sem boðið er upp á í eldhúsi leikskólans.

  • Starfsfólk í leikskólaeldhúsi hefur viðeigandi hæfni og/eða menntun til að sinna sínu starfi og fær reglulega endurmenntun í málaflokkum tengdum starfinu.