Til þess að ná sem bestum árangri í heilsueflingu og forvörnum í
leikskólastarfinu er mikilvægt að vera í samstarfi við lykilaðila í
nærsamfélaginu. Virkt samstarf milli skóla og annarra í nærsamfélaginu stuðlar að sameiginlegum skilningi á því sem er mikilvægt til heilsueflingar og velferðar, að lausnum helstu viðfangsefna og að leiðum til úrbóta og árangurs.
Til að átta sig á nærsamfélagi hvers skóla þarf fyrst að skoða hvaða
stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök eru í skólahverfinu og síðan hvort viðkomandi sé þegar tengdur skólastarfinu og þá hvernig. Kortlagning samstarfsaðila í nærsamfélaginu gefur yfirsýn yfir stöðuna og hugsanleg sóknarfæri til nánara samstarfs.
Samstarfsaðilar geta t.d. verið söfn, menningarstofnanir, heilsugæsla, stoðþjónusta skóla, aðrir skólar, íþrótta- og tómstundafélög, íbúasamtök, hjúkrunar- og dvalarheimili og lögregla. Markmið
samstarfsins er að samræma aðgerðir og móta sameiginlega sýn og stefnu um heilsueflingu. Hver leikskóli þarf að móta þetta samstarf og taka ákvarðanir um hvaða aðilar í nærsamfélagi þeirra skipta
máli í því sambandi.
Viðmið
- Virkt samstarf er á milli leikskóla og nærsamfélagsins.
- Samræmi er milli áherslu leikskólans og lykilaðila í samfélaginu um
heilsueflingu.