Í leikskólum er mögulegt að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að betri tannheilsu barna en meira er um tannskemmdir meðal íslenskra barna en sambærilegra hópa í nágrannalöndunum. Auka má tannheilsuvitund og bæta tannheilsu með því að kenna og koma á góðum venjum varðandi mataræði og munnhirðu bæði heima og í leikskólanum. Mikilvægt er að börnin læri að þeim líður vel með hreinar og heilbrigðar tennur.
Finna má almennar upplýsingar um tannheilsu á vef Heilsuveru
Almennar ráðleggingar mæla með tannburstun að lágmarki tvisvar á dag, eftir morgunverð og mjög vel áður en farið er að sofa á kvöldin. Foreldrar gegna lykilhlutverki í tannhirðu barna sinna en samvinna heimila og leikskóla getur stuðlað að enn betri tannheilsu barna og þar með að betri tannheilsu síðar á ævinni.
Viðmið
- Tannheilsustefna leikskólans taki mið af leiðbeiningum embættis landlæknis, með áherslu á hreinar og heilbrigðar tennur.
- Foreldrar og starfsfólk fá fræðslu um tannheilsu og tannhirðu
- Leikskólinn er í samstarfi við heimili og heilsugæslu, auk félagsþjónustu, vegna tannheilsu barna